Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1244, 154. löggjafarþing 32. mál: fjölmiðlar (EES-reglur, hljóð- og myndmiðlun o.fl.).
Lög nr. 27 23. mars 2024.

Lög um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011 (EES-reglur, hljóð- og myndmiðlun o.fl.).


1. gr.

     Í stað orðsins „fjölmiðlalæsi“ í 1. gr. laganna kemur: upplýsinga- og miðlalæsi.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
  1. Á eftir orðinu „hreyfimynda“ í 5. tölul. kemur: óháð lengd.
  2. 13. tölul. orðast svo: Fjölmiðill er aðili eða lögaðili sem veitir fjölmiðlaþjónustu með reglubundnum hætti.
  3. 15. tölul. orðast svo: Fjölmiðlaþjónusta er þjónusta þar sem megintilgangur eða aðskiljanlegur hluti hennar er tileinkaður miðlun á efni, undir ritstjórnarlegri ábyrgð fjölmiðilsins, til almennings í þeim tilgangi að upplýsa, fræða eða skemmta.
  4. 27. tölul. orðast svo: Kostun er hljóð- og myndsending í viðskiptaskyni sem tekur til hvers konar framlaga opinbers fyrirtækis, einkafyrirtækis eða einstaklinga til fjármögnunar einstakra dagskrárliða, mynddeiliþjónustu eða notendaframleidds efnis með það fyrir augum að vekja athygli á heiti viðkomandi, vörumerki, ímynd, starfsemi eða vörum enda fáist viðkomandi ekki við hljóð- og myndmiðlun, mynddeiliþjónustu eða framleiðslu slíks efnis.
  5. Á eftir 1. málsl. 43. tölul. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Slíkt myndefni og/eða hljóð getur fylgt eða verið hluti af dagskrárlið eða notendaframleiddu efni.
  6. 45. tölul. orðast svo: Vöruinnsetning er viðskiptaboð sem tekur til allra gerða hljóð- og myndsendinga í viðskiptaskyni sem taka til eða vísa til vöru, þjónustu eða vörumerkis hennar þannig að þær komi fram í dagskrárlið eða notendaframleiddu efni gegn greiðslu eða öðru endurgjaldi.
  7. Eftirfarandi skilgreiningar bætast við greinina í viðeigandi stafrófsröð:
    1. Mynddeiliveita er aðili eða lögaðili sem veitir mynddeiliþjónustu.
    2. Mynddeiliþjónusta er þjónusta þar sem megintilgangur, aðskiljanlegur hluti eða grundvallarvirkni þjónustunnar er að miðla dagskrárefni, notendaframleiddu efni eða hvoru tveggja til almennings í þeim tilgangi að upplýsa, fræða eða skemmta og hefur mynddeiliveitan ekki ritstjórnarlega ábyrgð en ber þó ábyrgð á skipulagi og flokkun á efni veitunnar, þ.m.t. birtingu, röðun og merkingu með sjálfvirkum hætti eða algrími.
    3. Notendaframleitt efni er safn hljóðskráa og/eða hreyfimynda, óháð lengd, sem myndar heild og búið er til af notanda og hlaðið upp til mynddeiliveitu af honum eða öðrum notanda.
    4. Ritstjórnarákvörðun er ákvörðun sem tekin er reglulega í þeim tilgangi að beita ritstjórnarábyrgð í tengslum við daglegan rekstur fjölmiðils.


3. gr.

     3. gr. laganna orðast svo:
     Lög þessi gilda um alla fjölmiðla og fjölmiðlaveitur sem hafa staðfestu hér á landi eða miðla efni sem ætlað er almenningi hér á landi, að teknu tilliti til ákvæðis 4. gr. Þau gilda því um allt hljóð- og myndefni í læstri eða ólæstri dagskrá, línulegri dagskrá eða eftir pöntun óháð þeirri dreifileið sem valin hefur verið. Jafnframt gilda þau um allt ritefni hvort sem því er miðlað á prentuðu eða öðru sambærilegu formi eða með rafrænum hætti. V. kafli A gildir um mynddeiliveitur sem hafa staðfestu hér á landi eða miðla efni sem ætlað er almenningi hér á landi, að teknu tilliti til ákvæðis 4. gr. a.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „ákvarðanir um dagskrárefni og aðra þætti sem lúta að ritstjórn“ í a–d-lið 1. mgr. kemur: ritstjórnarákvarðanir.
  2. Í stað orðsins „myndmiðlunina“ í b–d-lið 1. mgr. kemur: dagskrártengda fjölmiðlaþjónustu.
  3. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Fjölmiðlaveita skal upplýsa fjölmiðlanefnd um allar breytingar sem geta haft áhrif á ákvörðun um lögsögu samkvæmt þessari grein.
  5. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  6.      Komi upp ágreiningur við annað EES-ríki um lögsögu yfir fjölmiðlaveitu skal vísa málinu til Eftirlitsstofnunar EFTA og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
  7. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Lögsaga yfir fjölmiðlaveitum.


5. gr.

     Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein, 4. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Lögsaga yfir mynddeiliveitum.
     Mynddeiliveita sem hefur staðfestu á Íslandi heyrir undir lögsögu íslenska ríkisins.
     Leiki vafi á hvort mynddeiliveita heyri undir lögsögu íslenska ríkisins skal taka mið af því hvort mynddeiliveitan:
  1. hefur móðurfélag eða dótturfélag sem heyrir undir lögsögu íslenska ríkisins, eða
  2. er hluti af samsteypu og eitt dótturfélaga samsteypunnar er staðsett innan lögsögu íslenska ríkisins.

     Beri svo við að öll félög samsteypunnar tilheyri lögsögu mismunandi aðildarríkja skal mynddeiliveitan talin tilheyra lögsögu móðurfélagsins. Sé móðurfélagið ekki innan lögsögu Evrópska efnahagssvæðisins skal mynddeiliveitan hafa lögsögu í því aðildarríki þar sem dótturfélagið hefur staðfestu.
     Komi upp ágreiningur við annað EES-ríki um lögsögu yfir mynddeiliveitu skal vísa ágreiningnum án tafar til Eftirlitsstofnunar EFTA og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
  1. A-liður 1. mgr. orðast svo: fjölmiðlaþjónustan brýtur augljóslega, verulega og alvarlega gegn ákvæðum 28. gr. eða banni um að kynda undir hatri á grundvelli kynþáttar, kynferðis, trúarbragða eða þjóðernis eða stefnir heilsu almennings í alvarlega og verulega hættu.
  2. Í stað orðanna „15 daga“ í d-lið 1. mgr. kemur: eins mánaðar.
  3. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þessar ráðstafanir skulu gerðar án tillits til þeirra viðurlaga sem lögsöguríkið kann að hafa beitt.


7. gr.

     Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, 5. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Tímabundin stöðvun á móttöku myndmiðlunarefnis frá öðrum EES-ríkjum vegna almannaöryggis.
     Brjóti fjölmiðlaþjónusta fjölmiðlaveitu augljóslega, verulega og alvarlega gegn ákvæði 27. gr. eða skaði eða ógni almannaöryggi, þ.m.t. þjóðaröryggi og vörnum ríkisins, getur fjölmiðlanefnd stöðvað slíka móttöku myndmiðlunarefnis tímabundið að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:
  1. viðkomandi fjölmiðlaveita hefur áður brotið gegn ákvæði þessu eða 27. gr. undanfarna 12 mánuði,
  2. fjölmiðlanefnd hefur tilkynnt viðkomandi fjölmiðlaveitu og Eftirlitsstofnun EFTA eða framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, eftir því sem við á, skriflega um meint brot og þær ráðstafanir sem hún hyggst grípa til verði brot endurtekið.

     Ráðstafanir skv. 1. mgr. skulu vera án tillits til þeirra viðurlaga sem lögsöguríkið kann að hafa beitt.
     Í bráðatilvikum er heimilt að víkja frá ákvæði a- og b-liðar 1. mgr. Slíkt skal þó án tafar tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA eða framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, eftir því sem við á, og þar til bærs stjórnvalds í viðkomandi aðildarríki og það rökstutt sérstaklega að um bráðatilvik hafi verið að ræða.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
  1. Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  2.      Telji þar til bært stjórnvald í öðru EES-ríki að fjölmiðlaveita, sem heyrir undir íslenska lögsögu en dreifir myndefni sem að mestu eða öllu leyti er ætlað til móttöku í öðru EES-ríki, hafi brotið gegn ákvæðum laga þess ríkis getur þar til bært stjórnvald í því ríki farið fram á við fjölmiðlanefnd að hún beini því til fjölmiðlaveitunnar að hún fari að þeim ákvæðum sem um ræðir. Fjölmiðlanefnd skal halda móttökuríkinu reglulega upplýstu um þær aðgerðir sem teknar hafa verið í því máli sem um ræðir. Innan tveggja mánaða skal fjölmiðlanefnd upplýsa það aðildarríki sem lagði fram beiðnina, Eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, eftir því sem við á, um niðurstöðu málsins og rökstuðning þar að baki.
  3. Á eftir orðunum „ekki fullnægjandi og“ í inngangsmálslið 2. mgr. kemur: hefur gögn sem styðja.
  4. Í stað orðanna „skv. 1. og 2. mgr.“ í b-lið 2. mgr. kemur: skv. 1. og 3. mgr.
  5. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Samstarf eftirlitsstofnana.


9. gr.

     1. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra fer með framkvæmd laga þessara en í umboði hans annast sjálfstæð stjórnsýslunefnd, fjölmiðlanefnd, eftirlit samkvæmt lögunum og daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til.

10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „fjölmiðlalæsi“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: upplýsinga- og miðlalæsi.
  2. Við 2. mgr. bætast sex nýir stafliðir, svohljóðandi:
    1. halda skrá yfir fjölmiðlaveitur innan lögsögu Íslands og tiltaka á hvaða skilyrðum lögsagan byggist samkvæmt ákvæðum 4. gr.,
    2. fylgjast með og senda árlega skýrslu til Eftirlitsstofnunar EFTA um framkvæmd 33. gr. a,
    3. halda skrá yfir mynddeiliveitur innan lögsögu íslenska ríkisins og á hvaða grundvelli lögsagan byggist,
    4. gera áætlun og ráðstafanir til að efla og þroska upplýsinga- og miðlalæsi almennings og senda þriðja hvert ár skýrslu um það til Eftirlitsstofnunar EFTA,
    5. koma á fót nauðsynlegu verklagi til að meta hvort þær ráðstafanir sem mynddeiliveita hefur gert á grundvelli 36. gr. d séu fullnægjandi,
    6. senda skýrslu til Eftirlitsstofnunar EFTA á þriggja ára fresti um innleiðingu 30. gr.
  3. Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  4.      Fjölmiðlanefnd skal afhenda skrár skv. f- og h-lið 2. mgr. og breytingar sem á þeim verða til Eftirlitsstofnunar EFTA.
         Fjölmiðlanefnd skal taka þátt í öllu starfi samráðshóps fulltrúa evrópskra fjölmiðlaeftirlitsstofnana.


11. gr.

     Við 13. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Þegar fjölmiðlanefnd fær upplýsingar um að fjölmiðill innan íslenskrar lögsögu hyggist veita þjónustu sem beinist að mestu eða öllu leyti til áhorfenda í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu skal hún tilkynna eftirlitsyfirvöldum þess ríkis um fyrirætlanir fjölmiðilsins.
     Berist fjölmiðlanefnd fyrirspurn frá ríki á Evrópska efnahagssvæðinu um starfsemi fjölmiðils sem starfar innan íslenskrar lögsögu en beinir þjónustu sinni til viðkomandi ríkis, sbr. 3. mgr., skal nefndin leitast við að svara fyrirspurninni innan tveggja mánaða. Beini fjölmiðlanefnd sams konar fyrirspurn til annars ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu vegna fjölmiðils sem starfar innan lögsögu viðkomandi ríkis en beinir þjónustu sinni að mestu eða öllu leyti til áhorfenda innan íslenskrar lögsögu skal fjölmiðlanefnd veita allar þær upplýsingar sem að gagni geta komið við meðferð fyrirspurnar nefndarinnar.

12. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
  1. Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: þær kröfur sem gerðar eru til fjölmiðla um aðgengi sjón- og heyrnarskertra skv. 30. gr. og gera notendum kleift að koma kvörtunum á framfæri í gegnum vefgátt með einföldum hætti.
  2. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Upplýsingagjöf á vef fjölmiðlanefndar.


13. gr.

     Á eftir orðinu „aðgerðir“ í h-lið 1. mgr. 23. gr. laganna kemur: og áætlanir.

14. gr.

     27. gr. laganna orðast svo:
     Fjölmiðlum er óheimilt að:
  1. hvetja til hryðjuverka og annarrar refsiverðrar háttsemi,
  2. kynda undir hatri á grundvelli kynþáttar, kynferðis, kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar, aldurs, fötlunar, tungumáls, stjórnmála-, lífs- eða trúarskoðana, erfðafræðilegra einkenna, þjóðernis, þjóðfélagsstéttar, menningarlegrar, efnahagslegrar, félagslegrar eða annarrar stöðu í samfélaginu.


15. gr.

     Við 28. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Þegar ákvæði 2. mgr. eiga við skal fjölmiðlaveita sem miðlar efni í dagskrá eða eftir pöntun veita upplýsingar um innihald efnisins og vara við innihaldi þess með lýsandi myndtáknum.
     Persónuupplýsingar barna, sem safnað er eða verða til við vinnslu fjölmiðlaveitna skv. 1.–3. mgr., er óheimilt að vinna í viðskiptalegum tilgangi, svo sem í tengslum við beina markaðssetningu, gerð og notkun persónusniðs og einstaklingsmiðaðar auglýsingar.
     Um brot gegn 6. mgr. fer samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

16. gr.

     Í stað orðanna „eins og kostur er leitast við að“ í 30. gr. laganna kemur: stöðugt og stigvaxandi.

17. gr.

     Við 31. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Við miðlun sem um getur í 1. mgr. skal tryggja aðgengi sjón- og heyrnarskertra, m.a. með táknmáli, textun og hljóðlýsingu.

18. gr.

     Við 32. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Fjölmiðlaveita skal hafa eftirfarandi upplýsingar aðgengilegar fyrir notendur:
  1. nafn fjölmiðlaveitunnar,
  2. lögheimili,
  3. heiti fjölmiðla sem hún starfrækir,
  4. veffang, netfang eða aðrar leiðir sem gera notendum kleift að hafa samband við fjölmiðlaveituna með auðveldum hætti,
  5. aðildarríki sem hefur lögsögu yfir fjölmiðlaveitunni og eftirlitsaðila í því ríki.


19. gr.

     2. mgr. 33. gr. laganna fellur brott.

20. gr.

     Á eftir 33. gr. laganna kemur ný grein, 33. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Hlutfall evrópsks efnis í myndmiðlun eftir pöntun.
     Fjölmiðlaveita sem miðlar myndefni eftir pöntun skal tryggja, með viðeigandi aðferðum, að a.m.k. 30% af því efni sem í boði er sé evrópskt, sbr. 9. tölul. 2. gr., og að efnið sé áberandi hluti af framboði fjölmiðlaveitunnar.
     Ákvæði þessarar greinar gilda ekki um fjölmiðlaveitur með litla veltu eða fáa áhorfendur samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur.
     Fjölmiðlanefnd getur veitt undanþágu frá ákvæði 1. mgr. ef ekki er talið réttlætanlegt eða raunhæft að gera þær kröfur með vísan til eðlis og áherslu hljóð- og myndmiðlunarþjónustunnar.
     Fjölmiðlaveitu sem heyrir ekki lengur undir undanþágu 2. og 3. mgr. veitist 12 mánaða frestur til að tryggja að framboð veitunnar sé í samræmi við 1. mgr.

21. gr.

     Á eftir V. kafla laganna kemur nýr kafli, V. kafli A, Réttindi og skyldur mynddeiliveitna, með fjórum nýjum greinum, 36. gr. a – 36. gr. d, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (36. gr. a.)
Vernd barna.
     Mynddeiliveitur skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að vernda börn fyrir efni, notendaframleiddu efni og viðskiptaboðum er skaðað geta líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska þeirra.
     
     b. (36. gr. b.)
Bann við hatursáróðri og hvatningu til refsiverðrar háttsemi.
     Mynddeiliveitur skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að vernda almenning fyrir efni, notendaframleiddu efni og viðskiptaboðum sem fela í sér:
  1. hvatningu til ofbeldis eða haturs gagnvart hópi eða einstaklingum úr hópi á grundvelli kynþáttar, kynferðis, kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar, aldurs, fötlunar, tungumáls, stjórnmála-, lífs- eða trúarskoðana, erfðafræðilegra einkenna, þjóðernis, þjóðfélagsstéttar, menningarlegrar, efnahagslegrar, félagslegrar eða annarrar stöðu í samfélaginu,
  2. hvatningu til háttsemi sem talin er til refsiverðs verknaðar, þá sérstaklega hvatningu til hryðjuverka og háttsemi er lýtur að kynþátta- og útlendingahatri.

     
     c. (36. gr. c.)
Tilkynning um viðskiptaboð.
     Mynddeiliveitur skulu gera ráðstafanir til að upplýsa notendur um efni og notendaframleitt efni sem inniheldur viðskiptaboð.
     
     d. (36. gr. d.)
Skyldur mynddeiliveitna.
     Mynddeiliveitur skulu:
  1. taka upp í notendaskilmála sína bann gegn dreifingu efnis sem fjallað er um í 36. gr. a og 36. gr. b,
  2. innleiða í notendaskilmála sína þær kröfur sem gerðar eru til viðskiptaboða á grundvelli VI. kafla sem ekki eru markaðssett, seld eða skipulögð af viðkomandi mynddeiliveitu,
  3. gera þeim notendum sem hlaða upp efni kleift að upplýsa aðra notendur um hvort í efninu séu viðskiptaboð, eftir þeirra bestu vitund eða eftir því sem hægt er að ætlast til að þeim sé kunnugt um,
  4. setja á fót og starfrækja gagnsætt og notendavænt viðmót á vef sínum eða forriti sem gerir notendum þjónustunnar kleift að flagga eða tilkynna til þjónustunnar efni sem brýtur í bága við 36. gr. a og 36. gr. b og er sýnilegt á síðunni,
  5. setja á fót og starfrækja kerfi sem útskýrir fyrir notendum hvaða árangur hefur náðst sem rekja megi til tilkynningar og/eða flöggunar þeirra, sbr. d-lið,
  6. setja á fót og starfrækja kerfi sem auðvelt er í notkun og gerir notendum kleift að meta efni sem fjallað er um í 36. gr. a og 36. gr. b,
  7. setja á fót og starfrækja aldursstaðfestingarkerfi fyrir notendur með tilliti til efnis sem getur skaðað líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna,
  8. veita aðgang að foreldraeftirlitskerfi sem er undir stjórn notenda um efni sem getur haft skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan og siðferðilegan þroska barna,
  9. koma á fót og móta málsmeðferð sem er gagnsæ, auðveld í notkun og árangursrík til meðferðar og úrlausnar á kvörtunum notenda við framkvæmd aðgerða sem nefndar eru í d–h-lið,
  10. bjóða upp á árangursríkar ráðstafanir og tæki til að efla miðlalæsi notenda og vekja athygli notenda á þeim.

     Þær viðeigandi ráðstafanir sem mynddeiliveitum er skylt að gera skulu vera ákvarðaðar með tilliti til eðlis efnisins sem um ræðir, þess skaða sem það kann að valda og þeirra hópa sem því er beint að.
     Persónuupplýsingar barna, sem safnað er eða verða til við vinnslu fjölmiðlaveitna skv. f–h-lið 1. mgr., er óheimilt að vinna í viðskiptalegum tilgangi, svo sem í tengslum við beina markaðssetningu, gerð og notkun persónusniðs og einstaklingsmiðaðar auglýsingar.
     Um brot gegn 3. mgr. fer samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

22. gr.

     Á undan orðinu „siðferðilegum“ í 1. málsl. 38. gr. laganna kemur: andlegum.

23. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 39. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „hljóð- og myndmiðlunarefni“ í 3. mgr. kemur: trúarlegu efni, neytendaefni, fréttum og fréttatengdu efni eða efni.
  2. A-liður 4. mgr. orðast svo: Vöruinnsetning má hvorki snerta innihald og skipulag hljóð- og myndmiðlunarefnisins í línulegri dagskrá fjölmiðils eða í pöntunarlista fjölmiðils sem miðlar efni eftir pöntun að öðru leyti né hafa áhrif á ábyrgð og ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðlaveitunnar.
  3. Á eftir orðinu „skýran“ í d-lið 4. mgr. kemur: og viðeigandi.


24. gr.

     Á eftir 40. gr. laganna kemur ný grein, 40. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Áreiðanleiki útsendinga.
     Óheimilt er að breyta fjölmiðlaþjónustu eða bæta viðskiptaboðum við hana án afdráttarlauss samþykkis fjölmiðils.

25. gr.

     2. mgr. 41. gr. laganna orðast svo:
     Við myndmiðlun skal hlutfall auglýsinga og fjarkaupainnskota á milli kl. 6:00 og 18:00 ekki fara yfir 20% tímabilsins. Við myndmiðlun skal hlutfall auglýsinga og fjarkaupainnskota á milli kl. 18:00 og 24:00 ekki fara yfir 20% tímabilsins.

26. gr.

     Við 42. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Fyrirtæki sem hefur að aðalstarfsemi sölu eða framleiðslu á tóbaksvörum, nikótínvörum, rafrettum eða áfyllingum er óheimilt að kosta dagskrárliði eða aðra fjölmiðlaþjónustu.
     Aðilum sem reknir eru í hagnaðarskyni er óheimilt að kosta barna- og unglingaefni.

27. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 54. gr. laganna:
  1. Á eftir orðinu „fjölmiðlaveitur“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: og eftir atvikum mynddeiliveitur.
  2. Á eftir tilvísuninni „27. gr.“ í g-lið 1. mgr. kemur: og 36. gr. b.
  3. Á eftir tilvísuninni „28. gr.“ í h-lið 1. mgr. kemur: og 36. gr. a.
  4. Á eftir m-lið 1. mgr. kemur nýr stafliður, svohljóðandi: 1. mgr. 36. gr. d um skyldur mynddeiliveitna.
  5. Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  6.      Persónuvernd hefur eftirlit með framkvæmd ákvæða 4. mgr. 28. gr. og 3. mgr. 36. gr. d og er heimilt að beita viðurlögum sé brotið gegn þeim. Um eftirlit og viðurlög fer skv. VII. kafla laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018.
  7. Í stað tilvísunarinnar „1.–3. mgr.“ í 4. mgr. kemur: 1.–4. mgr.


28. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 56. gr. laganna:
  1. Á eftir tilvísuninni „27. gr.“ í g-lið kemur: og 36. gr. b.
  2. Á eftir tilvísuninni „28. gr.“ í h-lið kemur: og 36. gr. a.
  3. Á eftir m-lið kemur nýr stafliður, svohljóðandi: 1. mgr. 36. gr. d um skyldur mynddeiliveitna.


29. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 62. gr. laganna:
  1. Á eftir tilvísuninni „28. gr.“ í c-lið kemur: nánari útfærslu á 2. mgr. 33. gr. a.
  2. Á eftir c-lið kemur nýr stafliður, svohljóðandi: Nánari fyrirmæli á grundvelli V. kafla A um réttindi og skyldur mynddeiliveitna.


30. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 63. gr. laganna:
  1. Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Einnig eru innleidd ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1808 frá 14. nóvember 2018 um breytingu á tilskipun 2010/13/ESB um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um hljóð- og myndmiðlunarþjónustu (tilskipun um hljóð- og myndmiðlunarþjónustu) í ljósi breytinga á markaðsaðstæðum eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 337/2022 frá 9. desember 2022.
  2. Greinin fær fyrirsögn, svohljóðandi: Innleiðing.


31. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 12. mars 2024.